Saga fyrirtćkisins


Fyrstu árin
Sögu Nóa Síríus má rekja allt aftur til ársins 1920. Þá var stofnað fyrirtæki sem hét Brjóstsykursgerðin Nói af þeim Gísla Guðmundssyni, Lofti Guðmundssyni, Eiríki Bech, Halli Þorleifssyni og Þorgils Ingvarssyni. Þorgils varð fyrsti framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Fjórum árum síðar gekk H. Benediktsson & Co í félag við stofnendurna og árið 1927 var fyrirtækinu breytt í hlutafélag.

Fyrst í stað var einungis framleiddur brjóstsykur og karamellur og fór starfsemin fram í kjallaraherbergi á Óðinsgötu 17. Síðan var hún flutt á Túngötu 2, næst á Túngötu 5, því næst á Smiðjustíg 11 og árið 1933 komst starfsemin loks í eigið húsnæði á Barónsstíg 2. Sama ár keypti Nói hf. súkkulaðiverksmiðjuna Síríus frá Danmörku og voru bæði fyrirtækin rekin af sömu aðilum undir einu þaki, þótt þau væru áfram tvær sjálfstæðar rekstrareiningar. Á sama stað var einnig sápuverksmiðjan Hreinn, en hana keypti Nói hf. árið 1930.


Fyrsti starfsmaður Nóa var Eiríkur Bech, en hann hafði lært sælgætisgerð í Danmörku. Eiríkur varð síðan framkvæmdastjóri fyrirtækisins árið 1924 og gegndi því starfi allt til 1954 er Hallgrímur Björnsson efnaverkfræðingur var ráðinn í starfið. Einungis tveir framkvæmdastjórar hafa gegnt þeirri stöðu síðan, en það eru Kristinn Björnsson frá 1981 til 1990 og Finnur Geirsson frá 1990.

Verndað umhverfi
Allt fram til 1970 þegar Ísland gekk í EFTA var innflutningur á sælgæti óheimill með örfáum undantekningum. Þetta mótaði eðlilega starfsumhverfi íslensks sælgætisiðnaðar á þessum árum. Þá snerist starfsemin fyrst og fremst um framleiðsluna á meðan sölustarfsemin var í lágmarki.

Samkeppni var þó töluverð á milli innlendra framleiðenda, sem sumir hverjir eiga sér langa sögu rétt eins og Nói Síríus. En á sama tíma og innflutningsverndin veitti sælgætisframleiðslunni visst skjól þá voru rekstrarskilyrðin að ýmsu öðru leyti heldur bágborin. Strangt verðlags- og gjaldeyriseftirlit takmarkaði mjög möguleika íslenskra sælgætisfyrirtækja á að vaxa og dafna, sem og annarra fyrirtækja á þessum árum, og raunar áfram eftir að innflutningshömlum hafði verið aflétt.

Óheft samkeppni
Við inngöngu Íslands í EFTA árið 1970 var heimilaður innflutningur á sælgæti. Háir tollar voru á innflutningnum fyrst í stað, en smám saman lækkuðu þeir og árið 1981 voru þeir endanlega felldir niður. Það er óhætt að segja að menn hafi ekki verið allt of bjartsýnir um framtíð íslensks sælgætisiðnaðar á þessum árum. Hvernig áttu lítil íslensk sælgætisfyrirtæki að standast samkeppni við risastór erlend sælgætisfyrirtæki sem mörg hver höfðu yfir að ráða plantekrum, þaðan sem hráefni í framleiðsluna kom?

Eins og búist hafði verið við jókst innflutningurinn stig af stigi frá þeim tíma sem hann var fyrst heimilaður og náði fljótlega ríflega helmings hlutdeild á sælgætismarkaðinum. Þrátt fyrir þetta dró ekki úr framleiðslu íslensku sælgætisfyrirtækjanna því svo virðist sem að markaðurinn hafi stækkað um nálægt það sem innflutningnum nam.

Árin frá því um 1980 hafa einkennst af stöðugri vöruþróun sælgætisvara og sölustarfsemin er orðin mun öflugri en áður var. Markaðshlutdeild íslenskra fyrirtækja á íslenska sælgætismarkaðinum hefur verið á bilinu 40 - 45% undanfarin ár og er Nói Síríus þeirra langstærst.

Vaxandi fyrirtæki
Árið 1977 var svo komið að húsnæðið að Barónsstíg gat ekki lengur hýst alla starfsemina og var söludeild og lager fyrirtækisins flutt í leiguhúsnæði á Suðurlandsbraut 4. Sama ár voru Nói hf. og Síríus hf. sameinuð og nefndist fyrirtækið eftir það Nói Síríus hf. Um tíu árum síðar var fyrirtækið Hreinn hf. síðan flutt í leiguhúsnæði á Hyrjarhöfða 6 og var loks sameinað Nóa Síríus í árslok 1992.

Árið 1993 flutti öll starfsemin undir eitt þak í nýlegt rúmlega 6.000 fermetra húsnæði að Hesthálsi 2-4 og á sama tíma var innflutningsstarfsemi H. Benediktsson hf. sameinuð Nóa Síríusi, en uppistaða þeirrar starfsemi var innflutningur á Kellogg´s morgunkorni. Árið 1995 var starfsemi sú sem hafði tilheyrt Hreini seld, þ.e. framleiðsla á sápuvörum ásamt verslun með kerti og jólavarning, en þremur árum áður hafði kertaframleiðslu verið hætt.Í lok ársins 1995 festi fyrirtækið kaup á hinu gamalgróna sælgætisfyrirtæki Opal. Í tengslum við þau kaup var hluti af starfseminni fluttur til Akureyrar í u.þ.b. 1.500 fermetra húsnæði. Helstu framleiðsluvörur Opal voru töflur og brjóstsykur, en einnig framleiddi fyrirtækið karamellur, hlaup og ýmsar súkkulaðivörur og eru þessar vörur nú hluti af vöruúrvali Nóa Síríus. Þar með hefur Nói Síríus snúið sér eingöngu að framleiðslu og verslun með matvörur.

Erlend umsvif
Árið 1999 var framleiðslustarfsemi hætt á Akureyri og var hún flutt í húsnæðið að Hesthálsi. Hluti af framleiðslutækjunum var fluttur til Lettlands þar sem Nói Síríus setti upp framleiðslustarfsemi ásamt öðrum fjárfestum. Ári síðar festi Nói Síríus kaup á hlut í rótgrónu kex framleiðslufyrirtæki í Lettlandi (Staburadze) og rann framleiðslufyrirtækið inn í það fyrirtæki. Skömmu síðar festi það fyrirtæki kaup á meirihluta hlutafjár í stærsta sælgætisfyrirtæki Lettlands (Laima) og til varð stórt og öflugt fyrirtæki Laima/Staburadze sem Nói Síríus átti fjórðungshlut í. Í lok árs 2004 seldi Nói Síríus sinn hlut og hóf leit að fjárfestingartækifærum annars staðar. Í byrjun árs 2006 festi fyrirtækið kaup á rótgrónu ensku súkkulaðifyrirtæki, Elizabeth Shaw. Það fyrirtæki var síðan selt í maí 2009 og hefur Nói Síríus einbeitt sér síðan að útflutingi eigin framleiðslu.

Helstu markaðir eru Bandaríkin, Rússland, Danmörk og Færeyjar. Vegna vaxandi umfangs reyndist nauðsynlegt að stækka húsnæðið, en árið 2006 var reist 1.800 fermetra vöruhús á lóð fyrirtækisins að Hesthálsi og er heildarstærð húsnæðis nú orðið um 8.000 fermetrar.

Framleiðsla og innflutningur
Um 150 manns vinna nú hjá Nóa Síríus. Framleiðir fyrirtækið fjöldan allan af sælgætistegundum af mörgum stærðum og gerðum. Á meðal framleiðsluvara fyrirtækisins er súkkulaði af ýmsu tagi undir heitinu Síríus, pokavörur með brjóstsykri, karamellum, rúsínum og fleira sælgæti undir Nóa heitinu, töflur með ýmsum bragðtegundum undir heitinu Opal og Tópas, hálsbrjóstsykur undir heitinu Háls og svo auðvitað konfekt og páskaegg. Vöruúrvalið eykst stöðugt og umbúðir og markaðsaðgerðir taka örum breytingum í samræmi við kröfur markaðarins og tækninýjungar. Starfsemin einskorðast þó ekki við framleiðslu eins og fram hefur komið og er talsvert flutt inn af sælgæti til dæmis frá fyrirtækjum eins og Cadbury og Park Lane, auk Kelloggs morgunkorns.

Traustur grunnur
Nói Síríus hefur mest allan feril sinn verið í eigu sömu fjölskyldu, en 80% hlutafjár er nú í eigu þriggja eignarhaldsfélaga sem tengjast fjölskylduböndum. Árið 2005 lét Ingileif Bryndís Hallgrímsdóttir af stöðu stjórnarformanns eftir rúmlega fimmtíu ára setu, en núverandi stjórnarformaður er Áslaug Gunnarsdóttir.

Nói Síríus byggir á gömlum grunni og nýtur þess að hafa haft tækifæri til að vaxa með þjóðinni um langt árabil. Óheft samkeppni mörg undanfarin ár hefur einnig hert fyrirtækið og eflt, og hefur það ríka ástæðu til að líta framtíðina björtum augum.